Munnþurrkur

Munnþurrkur

Munnþurrkur er oft á tíðum þjakandi ástand sem getur valdið mikilli skerðingu á lífsgæðum og hefur slæm áhrif á tannheilsu einstaklinga. Munnþurrkur getur haft ýmsar undirliggjandi orsakir og er algeng aukaverkun lyfja/meðferða en einnig afleiðing ýmissa sjúkdóma. Þegar einstaklingur þróar með sér óútskýrðan munnþurrk er mikilvægt að undirliggjandi orsök sé greind og meðhöndluð þegar hægt er. Einnig eru forvarnir, leiðbeiningar og rétt meðferð mikilvægir þættir til að forðast slæm áhrif á tann- og munnheilsu.

Til eru ýmsar aðferðir til þess að meðhöndla munnþurrk. Við mælum sérstaklega með Xylimelts sem er byltingarkennd vara í baráttunni við munnþurrk.

Nánari upplýsingar um munnþurrk

Hvað er xerostomia og minnkað munnvatnsflæði?

Xerostomia er tilfinningin um að hafa þurran munn. Margir (en ekki allir) sjúklingar sem hafa xerostomiu hafa einnig sjáanlega og mælanlega minnkun á magni munnvatns í munninum, þá er talað um “minnkað munnvatnsflæði” eða “vanvirka munvatnskirtla”. Margir nota orðið “munnþurrkur” bæði yfir “xerostomiu” og “minnkað munnvatnsflæði” vegna þess að flestir (en ekki allir) þeirra sem eru með “xerostomiu” hafa einnig “minnkað munnvatnsflæði”. Þó að eðlilegt sé að munnvatnflæði minnki á nóttunni að ákveðnu marki þá lýsir fólk með munnþurrk því eins og  munnurinn sé alltaf “skrælnaður” eða “eins og eyðimörk” og ber venjulega með sér vatnsbrúsa hvert sem það fer.

Munnþurrkurinn á sér stað vegna minnkunar á framleiðslu munnvatns í munnvatnskirtlunum. Sjúklingar með lítið munnvatn eiga oft í vandræðum með að tala, tyggja og kyngja, og eru í aukinni hættu á að fá tannskemmdir og sveppasýkingar. Stundum verða sjúklingar varir við “beiskt” eða “málmkennt” bragð, og einnig minnkað eða jafnvel ekkert bragðskyn. Hin minnkaða smurning sem munnvatnið gefur munninum veldur því að sumir geta þróað með sér sársaukafull slímhúðarsár en aðrir fá dreifðan sviða eða bruna tilfinningu.

 

Hvað veldur minnkuðu munnvatnsflæði?

Það eru margar mismunandi ástæður fyrir minnkuðu munnvatnsflæði:

-Þrjár algengustu ástæðurnar eru lyfjanotkun, kviði eða þunglyndi, og vökvatap. Algeng lyf sem geta valdið minnkuðu munnvatnflæði eru lyf við háum blóðþrýsting (t.d. þvagræsilyf), lyf við kvíða og þunglyndi, og lyf við ofvirkri þvagblöðru.

-Frekar óalgeng en mikilvæg orsök fyrir minnkuðu munnvatnsflæði er geislun á höfuð og háls sem veldur óafturkræfum skemmdum á munnvatskirtlunum.

-Í sjúkdómum eins og Sjögren syndrome (sem er sjálfsofnæmissjúkdómur) og hýsilhöfnunarsjúkdóm (sem sést hjá þeim sem hafa þegið beinmerg eða stofnfrumur eftir lyfjameðferðir), þá getur ónæmiskerfið ráðist á munnvatnskirtlana og valdið óafturkræfum skemmdum.

-Ýmis önnnur vandamál geta stuðlað að minnkuðu munnvatnsflæði t.d. sykursýki, nýrnavandamál, ofl.

 

Hvernig veistu að þú ert með minnkað munnvatnsflæði?

Reyndur tannlæknir/læknir getur oftast greint vandamálið með því að hlusta á sögu sjúklings og skoða hann vel. Munnslímhúðin getur verið þurr og rauð með lítilli pollamyndun í munngólfi, munnvatnið getur verið þykkt, froðukennt eða klístrað, og tungan getur verið þakin og hvítleit. Í einhverjum tilfellum gæti þurft að taka vefjasýni eða panta blóðrannsókn til að útiloka vandamál eins og Sjögren sjúkdóm. Þó að ekki sé alltaf þörf  á munnvatnsmælingu til að staðfesta munnþurrk þá er það oft mikilvægur þáttur í greiningu á Sjögren sjúkdómi.

 

Hvernig meðhöndlum við minnkað munnvatnsflæði?

Það eru ýmsar leiðir til þess að meðhöndla einkenni munnþurrks. Að innbyrða nægilegt magn af vatni er einföld leið sem virkar oftast vel. Neyslu drykkja sem innihalda koffein og áfengi skyldi minnka eins mikið og unnt er þar sem þeir stuðla að vökvatapi. Ef  fæða festist í hálsi við kyngingu er mælt með því að drekka með matnum, forðast þétta og þurra fæðu, skera mat í litla bita, og tyggja vel áður en kyngt er. Sykurlausir molar og tyggjó geta virkað vel til að örva munvatnskirtlana við að mynda meira munnvatn. Ýmis vörumerki framleiða munnþurrskvörur (sprey, munnskol, gel, tannkrem, töflur, mola) en Biotene og Flux hefur verið einna mest notað hér á landi og virka þessar vörur oft vel til að minnka einkenni. Í sumum tilfellum getur hjálpað að skrifa upp á lyf sem örva munnnvatnsflæði t.d. Salagen og Evoxac.

Það er mikilvægt að reyna að stöðva tannskemmdir og sveppasýkingar, sem eru frekar algengar aukaverkanir minnkaðs munnvatnsflæðis. Það skyldi því minnka inntöku sykraðara drykkja, svo sem djúss og gosdrykkja. Allir með markverðan munnþurrk skyldu fá háskammta flúor tannkrem, t.d. Duraphat, til að minnka tíðni tannskemmda. Tannkremið er borið á með tannbursta á kvöldin án þess að skola á eftir. Stundum er hægt að búa til skinnur, svipaðar lýsingarskinnum, sem hægt er að setja flúorinn í og láta þær liggja á tönnum í lengri tíma. Við hefðbundna tannburstun getur verið gott að nota barnatannkrem eða Biotene tannkrem, þar sem hefðbundin tannkrem geta valdið sviða og óþægindum. Það er einnig mikilvægt að hitta tannlækni sinn reglulega til að láta skoða og hreinsa tennur. Það skyldi gera við allar tannskemmdir eins fljótt og hægt er. Sumir fá endurteknar sveppasýkingar og gerir þetta viðkvæmnina oft meiri. Að drekka AB mjólk 2-3 x á dag getur hjálpað til við að minnka tíðni sveppasýkinga. Aðra þarf þó að meðhöndla með sveppalyfjum. Ýmis nefsprey með saltvatni til að minnka þurrk í nefi, notuð nokkrum sinnum á dag, geta hjálpað til við að bæta bragð- og þefskyn.

 

Við hverju má búast?

Oftast er minnkað munnvatnsflæði langvarandi vandamál. Það getur hjálpað sumum að hætta á lyfjum sem valda munnþurrknum. Þar sem margir eru þó að taka lyfin við krónískum sjúkdómum er þetta ekki alltaf möguleiki. Margir geta þó vanist því að vera með munnþurrk með tímanum og veldur þetta vandamál oft minni vanlíðan með árunum.